23.11.08

Hvað kemur út úr kreppunni? Draumur flestra er endurheimtur kaupmáttur. Sumir láta sig dreyma um meiri jöfnuð. Margir tala um niðurfellingu verðtryggingar og lægri vaxtabyrði af lánum en ég efast um að margir leyfi sér að vona. Örfáir eru með hugmyndir um kommúnisma eða breytt þjóðskipulag. Draumórar. Líklegasta niðurstaðan er að hér verði hefðbundið vestrænt kapitalískt samfélag hvar flestir vinna langan vinnudag á lágum eða meðalháum launum og örfáir hagnast gríðarlega; menningin ómerkileg. 

Það kemur síst á óvart að stjórnvöld segi ekki af sér. Þau hafa um það val og til þess vald. Hitt verður verra þegar þjóðin kýs aftur yfir sig um það bil sama flokkinn og sama skipulagið.

Það þarf enga bankakreppu til þess að búa til Nýtt Ísland og gera róttækar breytingar. Hér hefur ríkt menningarleg kreppa og kapitalísk kúgun í langan tíma. Það hlýtur að teljast kaldhæðnislegt ef lausafjárkreppa og bankahrun leysi þá meðalmennsku sem ríkt hefur frá því um og fyrir frönsku byltinguna.

Í einum spjallþætti sem er svo stuttur að varla gefst tími til að skilgreina hugtök, hvað þá afmarka umræðuefni og ræða um það, var hægt að skilja einn viðmælandann sem svo að 150.000 króna virðingarhlutur í banka hefði breyst í eignarhluta að virði 50.000.000 krónur í banka sem var margra milljarða virði. Sem minnir mig á það: Hvernig væri að tryggja dreifðari eignaraðild að auðæfum þessa lands fyrst þau rötuðu aftur í hendur þjóðarinnar? Úps, draumórar.

Engin ummæli: