28.11.08

Einn af leiðtogum sjálfstæðisflokksins á landsbyggðinni steig fram og hvatti til þess að vaxtabætur yrðu hækkaðar verulega vegna þess að hann hefði það á tilfinningunni að menn ættu "erfitt með að hreyfa við verðtryggingunni" eins og hann orðaði það. Þessi yfirlýsing er nokkuð merkileg. Það gerist ekki oft að forsvarsmenn sjálfstæðisflokksins kalli eftir stórfelldri útgjaldaaukningu nema þá í framkvæmdir úti á landi. Merkilegra þykir mér þó að heyra kröfuna frá sjálfstæðisflokknum, svona utan af landi, fremur en frá forystu stjórnarandstöðunnar af þingi. Það verður að segjast að það fer ekki mikið fyrir tillögum stjórnarandstöðunnar um aðgerðir í kreppunni.

Ég er hlynntur því að fá að kjósa um aðgerðir í kreppunni í gegnum þingkosningar en er farinn að óttast um að flokkarnir muni ekki leggja fram áþreifanlega stefnu í þessum málum. Stjórnarandstaðan ætlar að auka fylgi sitt út á andúð almennings á ríkisstjórninni einu saman að því er virðist. Það kann að vera skynsamlegt til þess að fara örugga leið að því að auka fylgi stjórnarandstöðuflokks en það er ekki samfélagslega ábyrgt né heldur ákjósanleg afstaða fyrir þá sem vilja bera saman aðgerðir.

Engin ummæli: